TEXTÍLMENNT & SJÁLFBÆRNI
  • HEIM
  • Leiðbeiningar
    • Notkun á námsefninu
  • Fræðsla
    • Sjálfbærni
    • Neysla
    • ​Textíl-og tískuiðnaðurinn >
      • Fatasóun
      • Skynditíska
      • Sjálfbær Tíska
    • Úrgangur
    • Hvað getum við gert?
  • Börn Hafa Áhrif
  • Verkefni
    • Endurvinnslu Verkefni
    • Náttúrutengd Verkefni
    • Samfélagstengd Verkefni
  • Ítarefni
  • Um Okkur

VERKEFNI SEM TENGJAST NÁTTÚRUNNI 

Það er mikilvægt fyrir sjálfbærni að við styrkjum tengsl okkar við náttúruna og umhverfi okkar. Með auknum tengslum er líklegra að við sýnum náttúrunni virðingu og öðlumst skilning á mikilvægi hennar. Í textílmennt er hægt að vinna að ýmsum verkefnum sem stuðla að því að fá nemendur til að taka betur eftir umhverfi sínu og sjá það stóra og smáa í náttúrunni. 
​
​Almennt ver fólk tíma sínum minna út í náttúrunni en áður og um leið mætti segja að það hafi aftengst henni. Í asa nútímans gleymum við stundum að við erum hluti af náttúrunni og allt sem við notum kemur með einum eða öðrum hætti þaðan.  Ég hef rekið mig á börn eru yfirleitt ekki meðvituð um hvaðan hlutirnir sem við notum dagsdaglega koma. Þess vegna er hluti af  því að snúa til sjálfbærara lífs að verja meiri tíma í náttúrunni og ná að endurtengjast henni. Því ættu skólarnir að skapa tækifæri til náms úti í náttúrunni og umhverfinu.
Picture

VERKEFNI UNNIN í NÁTTÚRUNNI OG UMHVERFINU

Picture
Ef tækifæri gefst, er ótrúlega gaman að fara með nemendur út í náttúruna og gera þar verkefni. Áður fyrr léku börn sér meira úti og notuðu ímyndunaraflið við ýmislegt brask. Leikir snérust oft um að rannsaka umhverfið, finna hluti og prófa að búa eitthvað til. Mörg nútíma borgarbörn hafa fá tækifæri fyrir slíka leiki. Bæði hefur óbyggðum stöðum í borginni fækkað og tími barna oft mikið skipulagður. Ekki eru allir skólar svo heppnir að vera staðsettir nálægt ósnertri náttúru, a.m.k. ekki höfðuðborgarskólarnir. En ef vel af gáð má yfirleitt finna einhverja staði í nágrenninu sem hægt er að heimsækja og  svo er ströndin yfirleitt ekki langt undan. Smá ferðalög geta líka verið spennandi og börnum finnst gaman að ferðast með strætó. Margir skólar hafa auk þess komið sér upp útkennslustað sem nýta mætti í skemmtileg verkefni í textílmennt.   
HÆFNIVIÐMIÐ
Picture
Picture

LEYNIBÆLIÐ

Þegar ég var að alast upp á stór Reykjavíkursvæðinu var ég svo heppin að hafa í nágrenninu móa, mýri og fjöru. Við krakkarnir  vörðum miklum tíma í allskyns stúss úti, m.a. að byggja kofa og híbýli úr ýmsu tilfallandi efni sem við fundum í umhverfinu.
​
Verkefnið Leynibælið vann ég með tveimur samnemendum í meistaranámi við LHÍ, nokkrum nemendum í 5. bekk í Vogaskóla og elstu börnunum í leikskólanum Steinahlíð við Suðurlandsbraut. Verkefnið var unnið í skógarrjóðri í Steinahlíð og snérist um að þróa útikennsluverkefni. Fyrirfram höfðum við komist að samkomulagi um að við myndum reyna að vinna sem mest með efniviðinn sem  fyrirfinndist í skóginum og höfðum óljósar hugmyndir um einhverskonar híbýli. Vildum samt þróa hugmyndina með nemendunum. Á fundi með nemendunum byrjuðum við á því að tala um listverk unnin í náttúrunni og sýndum þeim myndir. Eftir það fengu allir að koma með hugmyndir og tillögur og verkefnið þróaðist. Úr varð saga, þar sem við í hópnum vorum nokkurnskonar útlagar vegna  óskilgreindar ógnar sem steðjaði að og þurftum að finna okkur samastað. Við skírðum verkefnið Leynibælið völdum okkur öll nýtt nafn eins og hlaupandi kanína og þrífættur refur. Við ákváðum að koma öll með einhverja hluti að heiman (eitthvað sem átti að henda) sem nýta mætti í byggingu og innviði.
Picture
Við, nemarnir komum með textílúrgang; efnisbúta og gamlar gardínur, garnafganga og reipisspotta. Síðan var staður valinn í leynum  í rjóðri. Hafist var handa og allir unnu streitulaust  u.þ.b. þrjá tíma á dag, í fjóra daga. Tjaldið var reist úr trjádrumbum og greinum, bundnir saman með böndum og tjaldað yfir með efnisbútum sem voru saumaðir og bundnir við greinarnar. Tjaldið og umhverfið var skreytt mað garni og ýmsu sem við fundum á staðnum.  Erfitt var að fá nemendur til að taka hlé að í lok dags, jafnvel í grenjandi rigningu. Allir unnu sjálfstætt, fundu góðar lausnir og sýndu verklagni. Síðasta daginn var haldin sýning þar sem vinum og ættingjum krakkanna var boðið að koma og sjá afraksturinn. Allir voru glaðir með verkefnið og skemmtu sér vel, nemendur og ekki síður við nemarnir.

GARNAFLÆKJA  -  VERKEFNI UNNIÐ Á SKÓLALÓÐINNI

Picture
Garnaflækja var unnið á þemadögum að vori í stöðvavinnu. Nemendur fóru í árgangs blönduðum hópum á milli stöðva. Verkefnið var unnið á tveimur dögum og allir nemendur (yngsta-og miðstigs) komu í 15 mínútur á stöðina. Verkefnið byggist þannig upp á samvinnu allra nemanda í skólanum. Það er áhugavert að fylgjast með samskiptunum þegar nemendur fá að vinna þvert á árganga. Eldri börnin upplifa ábyrgð og eru dugleg við að aðstoða yngri börnin og fá aðdáund til baka. Nýta þarf tímann vel í stuttri stöðvavinnu og því mikilvægt að verkefnið sé eitthvað sem allir ráða við. Ég talaði í upphafi stutt við hvern hóp um hannyrðagraff/hannyrðapönk þar sem fólk um allan heim stundar, kemur oft einhverjum skilaboðum á framfæri um leið og það skreytir umhverfið og gleður vegfærendur. Nemendur voru fljótir að átta sig á aðstæðum og til hvers væri ætlast og gengu hratt og örugglega í verkið. Næsti hópur hélt síðan áfram og svo koll af kolli. 
Eina efnið sem nota þarf í þetta verkefni eru garnafgangar og einnig nýti ég gamalt garn sem hefur safnast upp vegna þess að enginn hefur viljað nota það. 
Í fyrstu frímúnútum kom í ljós að graffið virkaði vel sem leiktæki og krakkarnir bjuggu til leik sem snérist um að komast í gegnum kóngulóavef án þess að snerta.
​Graffið fékk að standa áfram og var nýtt í leiki fram að sumarfríi.

VERKEFNI ÞAR SEM FUNDIN EFNIVIÐUR ÚR NÁTTÚRUNNI ER NOTAÐUR

Það getur verið góð tilbreyting bæði fyrir nemendur og kennara að fara í gönguferð um nærumhverfið. Skoða og rannsaka og sækja efnivið í verkefni. Tilvalið er að nýta jafnvel ferðina til að tína upp rusl. Ef vel er gáð má finna ýmislegt sem hægt er að vinna með;  trjágreinar, laufblöð, köngla og steina og í fjörunni má finna ýmislegt, s.s. skeljar, glersteina, fjaðrir  og kannsi prófa að vinna með þang og þara. Síðan er unnið með efniviðinn í stofunni. Velta fyrir sér í hvað nýta má efnið og gera tilraunir. Vefa, vefja, sauma og skreyta. Ef efnið sem sótt var er ekki allt nýtt fer það að sjálfsögðu í safnveituna.
​
HÆFNIVIÐMIÐ
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture

Ef farið er í vettvangsferð í fjöruna er gaman að nýta tækifærið og leika sér svolítið. Skoða og raða upp þangi, þara. steinum og skeljum og byggja kastala.


MÁLAÐ OG ÞRYKKT MEÐ PLÖNTUM

Picture
Það er um að gera að nýta góðviðrisdaga til þess að fara út með nemendur. Vor og haust henta vel í alskonar útiverkefni. Til dæmis að nýta hluti úr náttúrunni til þess að mála og þrykkja með á efni. Fara í göngutúr í nágrenni skólans og sækja blóm, strá og aðrar plöntur til þess að búa til mynstur og jafnvel pensla til þess að mála með. Gott er að byrja á því að gera tilraunir og æfa sig á litlum efnisprufum. Síðan sníða efnið í það sem gera sitt mynstur. Ef veðrið er súper gott er jafnvel hægt að mála og þrykkja úti.

VINNAN

VERKEFNIN

Að mála og þrykkja með plöntum getur hentað öllum aldri. Hér eru sýnd verkefni sem unnin voru í 4., 6. og 7. bekk. Nemendur í 4. bekk saumuðu sessur sem nýttar eru í heimakrók.  Þau merktu sínar sessur með útsaumi. 6. bekkur saumaði bakpoka og 7. bekkur púða eða töskur.
​Allir fóru í göngutúr og tíndu plöntur sem þau vildu nota. Þau gerðu prufur, völdu sér efni, sniðu, þrykktu og saumuðu í saumavél.
Picture

VERKEFNI SEM FJALLA UM NÁTTÚRUNA

Listamenn og handverksfólk hefur alla tíð sótt sér myndefni í náttúruna. Í textílmennt er hægt að gera mörg verkefni þar sem náttúran er skoðuð og unnið með hana í útsaumi. Útsaumsverkefni henta frábærlega vel  fyrir grunnskólanema. Mikil ró felst í slíkum verkefnum eins og mörgu handverki. Ef frjálsar aðferðir eru viðhafðar við útsauminn, ráða nemendur vel við verkið og sökkva sér niður í vinnuna. Mikið flæði myndast við vinnuna, núvitund og hugleiðsluástand skapast stundum.

Verkefni sem fjalla um náttúruna henta vel í samstarfi við aðrar greinar, t.d. samþætt verkefni með náttúrufræði og myndmennt. Farið er með nemendur í gönguferð, t.d. í fjöru, við tjörn eða út í móa og þau látin velja sér eitthvað úr náttúrunni til að skoða, rannsaka (í náttúrufræði), teikna (í myndmennt) og sauma t.d. með útsaumi (í textílmennt).  Tilvalið er að vinna þannig verkefni i hópvinnu, t.d. á þemadögum.
Hæfniviðmið

FUGLAR SEM LIFA Í NÁGRENNINU

Þetta verkefni var unnið á þemadögum og var samstarfsverkefni allra nemanda yngra- og miðstigs, en má að sjálfsögðu vinna sem einstaklingsverkefni. Farið var í fuglaskoðunarferð og nemendur beðnir að hugsa um fugla sem þeir þekkja úr nágrenninu. Þeir höfðu aðgang af veggspjaldi með fuglum úr nágrenninu og fuglabókum. Nemendur völdu sér einn fugl til að sauma á refil. Verkefnið var unnið í stöðvavinnu á teimur dögum. Nemendur unnu í samstarfi, hjálpuðust að og stundum komu fleiri en einn nemandi að hverjum fugli. Refillinn var unnin á strigabúta sem fundust í geymslu skólans. 
Picture

          BLÓMAFLÆKJA

Verkefnið blómaflækja var einnig unnið í samvinnu nemenda í 1. - 6. bekk á þemadögum. 15 nemendur unnu samtímis í 15 mínútur. Unnið var á þremur dúkum, út frá tveimur miðjum á hverjum dúk. Það var gert til þess að  koma öllum fyrir og til þess að fá skemmtilegt flæði í verkið. Fyrirmælin voru að öll blómin áttu að tengjast.  3-5 nemendur unnu samtímis út frá hverri miðju og var dreift þannig að eldri nemendur gátu aðstoðað þau yngri. Nemendur voru hvattir til að sauma blóm sem þau þekktu og höfðu aðgang að veggspjaldi af flóru Íslands og bækur um blóm og jurtir. Auk þess voru myndir á veggjum og borðum af útsaumsverkum, blómstursaumi og sporagerð. Sjálfbærni var haft að leiðarljósi við vinnsluna, gallaðir strigabútar og afgangsgarn var notað í verkið.         

                                      
                                                   Verkið er staðsett á almenningsbókasafni í hverfinu
                                            
Picture

          ÚTSAUMUR

Eins og margir kannast við hefur ýmiskonar handverk róandi áhrif á þá sem það iðka. Útsaumur er eitt af því sem hefur sérlega róandi áhrif. Þegar nemendur hafa náð grunnfæri í handsaumi er frjáls útsaumur eitthvað sem þau ráða vel við og ná þess vegna  að sökkva sér niður í verkið. Þeir ná oft að vinna í flæði sem skapar hugleiðsluástand og róar þau í amstri dagsins.  Útsaumur hentar öllum aldurshópum og getur orðið skreyting á ýmiskonar nytsamleg verkefni, t.d. koddaver og poka. Eldri nemendur nota auk þess oft útsaum til að gera við eða skreyta fatnað. 

ÞRÆÐIR ÚR NÁTTÚRUNNI

Verkefnið Þræðir úr náttúrunni er hugsað sem samþætt verkefni með náttúrufræði. Verkefnið byggist á vettvangsferð á einhvern stað úti í náttúrunni þar sem nemendur skoða og rannsaka hvað þar er að finna. Þeir velja sér eitthvað eitt sem þeir vilja rannsaka frekar, afla sér upplýsinga, skrifa skýrslu og útfæra mynd í útsaum. Verkefninu lýkur með sýningu, t.d. á bókasafni skólans eða jafnvel á einhverjum stað í nærsamfélaginu.

þræðir úr náttúrunni
TIL BAKA
Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • HEIM
  • Leiðbeiningar
    • Notkun á námsefninu
  • Fræðsla
    • Sjálfbærni
    • Neysla
    • ​Textíl-og tískuiðnaðurinn >
      • Fatasóun
      • Skynditíska
      • Sjálfbær Tíska
    • Úrgangur
    • Hvað getum við gert?
  • Börn Hafa Áhrif
  • Verkefni
    • Endurvinnslu Verkefni
    • Náttúrutengd Verkefni
    • Samfélagstengd Verkefni
  • Ítarefni
  • Um Okkur