TEXTÍL OG TÍSKUIÐNAÐURINN
Vart er hægt að hugsa sér daglegt líf án textíl- og vefnaðarvara. Heimili okkar og umhverfi er fullt af allskonar hlutum gerðum úr textíl, s.s. fatnaðurinn sem við klæðumst, handklæði, rúmföt, púðar, teppi, dúkar, gluggatjöld, listmunir, húsgagnaáklæði, mottur, gólfteppi, leikföng, tuskudýr, tjöld, svefnpokar, töskur, fánar, bönd og kaðlar, fiskinet, segl, loftbelgir, ...og meira að segja gervigrasvöllurinn!
|
HVAÐ ER TEXTÍLL?Textíl- og vefnaðarvörur eru gerðar úr þráðum úr allskonar efnum. Trefjum sem koma úr náttúrunni, s.s. bómull, hampi og viskósa eða úr dýraafurðum, s.s. ull og silki. Einnig úr tilbúnum trefjum og plastefnum sem hægt er að spinna í þræði, oft kölluð gerviefni. Þetta eru efni eins og polýester, nylon og akríll. Þráðurinn er síðan notaður m.a. til þess að framleiða efni sem yfirleitt eru annaðhvort ofin eða prjónuð. Efnin eru síðan meðhöndluð á ýmsan hátt, t.d. lituð. Úr efnunum er allt mögulegt sniðið og saumað, allskyns hlutir sem við notum dagsdaglega.
|
HVAÐ ER TEXTÍLIÐNAÐUR?Textíliðnaður nær allt frá ræktun trefja og meðhöndlun dýra, til uppskeru, hreinsunar og gerð hráefna til að framleiða lokaafurðirnar. Það getur verið allt frá hátískufatnaði, sem eru taldar hefðbundnar vefnaðarvörur, til loftsía fyrir ryksugur sem teljast til tæknilegra vefnaðarvara. Vegna fjölbreyttrar framleiðslu innan textíliðnaðarins er hann ein stærsta atvinnugrein heimsins sem milljónir manna starfa við. Leiðandi lönd í textíliðnaðinum eru Kína, Bangladesh og Indland.
|
10% AF ALLRI LOSUN CO2 ER Á ÁBYRGÐ FATAIÐNAÐARINS
EITUREFNI Í FATNAÐI OG ÖÐRUM TEXTÍLVÖRUM
Miklar líkur eru á því að ódýr fatnaður þar á meðal skynditískufatnaður innhaldi eiturefni. Þetta á sérstaklega við fatnað sem framleiddur er utan Evrópu þar sem í Evrópu eru í gildi sérstök reglugerð um efnanotkun í fataframleiðslu.
Eiturefnin geta til dæmis verið blý, PFAS efni og þalöt. Þessi efni eru notuð þar sem þau eru ódýrari valkostur við að lita textíl, mýkja plastefni og gera klæðnað vatns- og olíufráhrindandi. Efnin hafa skaðleg áhrif á innkirtla- og hormónastarfsemi. Fóstur, börn á vaxtarskeiðinu og unglingar á kynþroskaskeiðinu eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessum efnum. Þannig er ekki hægt að tryggja að fatnaður sem keyptur er á netinu frá fyrirtækjum utan Evrópumarkaðs séu eiturefnalaus. Á Íslandi er mikið verslað af fatnaði frá vefverslunum og sérlega mikið fá kínverska skynditískurisanum SHEIN. Fatnaður frá þeim er mjög ódýr og í þeim hefur fundist svo mikið af eiturefnum að heilbrigðisyfirvöld í mörgum löndum vara við honum. Umfjöllun um SHEIN: kjarninn.is/skyring/orlog-hradtiskuflika-fra-shein-fra-kina-til-islands-til-thyskalands/?fbclid=IwAR3BAOYQ3eEOOWSzKJNaGlUUtVVMUyz0PB4oQzkAqQ_h8GZPssNCelIX11E og: https://kjarninn.is/frettir/sorpa-skilgreinir-fot-fra-kinverska-tiskurisanum-shein-sem-eitradan-textil/ |
Skynsamlegt er að athuga hvaða stöðlum fyrirtæki fylgja í framleiðslu áður en fötin eru keypt. T.d. CE merking sem er eins konar vottun um eiturefnanotkun í framleiðslunni.
CE-merking er skilyrði fyrir markaðssetningu tiltekinna vara á Evrópska efnahagssvæðinu. Merkið er auðkennismerking sem gefur til kynna að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili vöru ábyrgist að hún uppfylli þær grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði sem tilskipanir Evrópusambandsins kveða á um. CE-merkingin þýðir hins vegar ekki að varan hafi verið framleidd í Evrópu og hún er heldur ekki ábending um að varan sé sérstaklega vönduð eða örugg og er því ekki gæðastimpill. |
FATAFRAMLEIÐSLA HEFUR TVÖFALDAST FRÁ ÁRINU 2000!
Vandinn stafar ekki eingöngu frá framleiðslunni því í nútímanum kaupum við meiri fatnað en nokkru sinni fyrr og við hendum líka meira en nokkru sinni fyrr. Talið er að þrjár af hverjum fimm flíkum sem keyptar eru endi innan árs í landfyllingu, þ.e. í jörðinni. Allt þetta er orðið mikið vandamál sem við neytendur getum tekið þátt í að leysa. Meðvitund um hvaðan fötin koma, framleiðsluferli þeirra, hver saumar og hvar þau eru saumuð og hversu oft þau eru notuð er þar lykilatriði. Nú virðist sem sú meðvitund sé að kvikna, sérstaklega hjá yngra fólki sem er jákvætt því þau eru neytendur framtíðarinnar.
|
"INNAN VIÐ 1% ALLRA KLÆÐA SEM FRAMLEIDD ERU Í HEIMINUM ERU
ENDURUNNIN OG ÖÐLAST FRAMHALDSLÍF SEM NÝJAR FLÍKUR"
LESTU MEIRA UM:
UMHVERFISÁHRIFUmhverfisvandamál tengd fataiðnaðinum eru margskonar því flíkur eru búnar til úr ólíkum efnum, bæði náttúrulegum og tilbúnum efnum sem framleidd eru úr hráolíu eins og til dæmis akrýl, nælon og pólýester. Heilmikið af efnavöru og auðlindum þarf til framleiðslu á vefnaði eins og ræktarland, vatn, skordýraeitur og ýmislegt fleira. Áætlað er að allt að 20% af allri vatnsmengun komi frá af textíliðnaði. Fjöldi mismunandi efna er notaður við framleiðslu þráðanna og varanna sem eru gerðar úr þeim. Mörg þessara efna eru skaðleg fyrir fólkið sem vinnur við framleiðsluna og okkur sem notum vöruna.
|
Það skiptir því máli fyrir heilsu og umhverfi hvaða efni eru notuð við framleiðslu vefnaðarvara og hvaða efnaleifar eru í hinni tilbúnu vöru. Meirihluti efnaúrgangs frá textílframleiðslu í þróunarlöndunum endar með einum eða öðrum hætti í vatninu sem hefur áhrif á fólkið sem býr í nágrenninu. Einnig geta efnin borist í umhverfið þegar við þvoum þær eða hendum þeim. Kemísk efni sem notuð eru við framleiðslu fatnaðar, þekkt sem azo litarefni, hafa verið tengd hækkaðri tíðni krabbameina og fæðingargalla. Verksmiðjur nota einnig sýklalyf sem leitt hafa til aukins sýklalyfjaónæmis.
|
"Það er mikil ofneysla á fatnaði á Íslandi og öðrum Vesturlöndum.
Hver Íslendingur kaupir rúmlega 17 kg af vefnaðarvöru árlega, sem er um þrisvar sinnum meira en meðal-jarðarbúi. Flestir kannast við yfirfulla fataskápa af fatnaði sem við notum lítið sem ekkert."
BÓMULL - ER EITT VINSÆLASTA EFNIÐBómull er náttúrlegt efni sem er notað í u.þ.b. helmings alls fatnaðar sem framleiddur er. Ræktun bómullarplöntunar er jafnframt ein sú ósjálfbærasta í heiminum í dag. Þó aðeins 2,4 prósent alls ræktunarlands sé notað fyrir bómullarræktun er hún gífulega vatnsfrek og efnanotkun í kringum ræktun hennar er mikil. Notkun áburðar og skordýraeiturs í bómullarræktun er ein sú mesta sem gerist í landbúnaði. Auk þess þarf ýmis eiturefni og vatn til að lita flíkina en afganginum af litnum er skolað í burtu og vatnasvæði taka við óhreinsuðu skólpi frá verksmiðjum með tilheyrandi áhrifum á lífríki og íbúa svæðanna í kring.
|
|
3.781 LÍTRAR AF VATNI ERU NOTAÐIR VIÐ FRAMLEIÐSLU Á BÓMULL TIL AÐ BÚA TIL EINAR GALLABUXUR! |
|
ÞETTA ERU FLÍKUR SEM VERÐA NOTAÐAR AÐ MEÐALTALI 7 SINNUM EN ALLT ÞETTA VATN GÆTI STUTT LÍF TIL FRAMTÍÐAR!
PÓLÝESTER - ANNAÐ VINSÆLT EFNIGerviefni eru gerð úr tilbúnum trefjum (manngerðum tefjum) og voru fundin upp á rannsóknarstofum um miðja síðustu öld. Þau eru framleidd með efnafæðilegum ferlum. Pólýester er vinsælasta gerviefnið og yfirleitt unnið úr hráefni eins og kolum og jarðolíu og er því í raun og veru plastefni. Kostir gerviefna er að þau endast lengi, eru sterk, geta verið vatnsþétt, teygjanleg og þorna yfirleitt fljótt. Ókostirnir eru að þau eru ekki góð fyrir umhverfið þegar þeim er fargað. Ef þau eru brennd verða til eitraðar lofttegundir og ef þau eru urðuð getur niðurbrot þeirra tekið allt að 200 ár auk þess sem slæm efni leka út í umhverfið. Við þvott losnar örplast sem endar síðan í hafinu og í sjávarlífverum. Pólýester er mikið notað í tískuvörur, íþróttafatnað og ýmislegt fleira og því er oft blandað við náttúrulegar trefjar eins og bómull eða ull eða gervi trefjar, til að gera efnið endingarbetra og auðvelda þvott.
|
ÁÆTLAÐ ER AÐ í 60% FATNAÐAR INNIHALDI PÓLÝESTER EÐA PLAST. VIÐ FRAMLEIÐSLU Á PÓLÝESTER ER KOLEFNISLOSUN ALLT AÐ ÞRISVAR SINNUM MEIRI EN VIÐ FRAMLEIÐSLU Á BÓMULL. PÓLÝESTER BROTNAR EKKI NIÐUR Í HAFINU.
HVAÐAN KOMA FÖTIN?Hvaðan koma allir þessir hlutir? Flestir hlutir sem við kaupum út í búð eru búnir til í löndum í öðrum heimshlutum. Til dæmis eru fötin okkar flest búin til í fátækum löndum, svo sem í Asíu. Það sjáum við þegar við skoðum miðann sem er á röngu fatanna okkar. Þetta þýðir að fötin hafa þurft að ferðast mjög langa leið til Íslands, með skipi eða flugvél sem mengar mjög mikið. Á sama miða má finna fleiri upplýsingar um flíkina, s.s. úr hvaða efnum hún er gerð og hvernig eigi að þvo hana og meðhöndla.
|
|
Talið er að um 150 milljón börn starfi í textíliðnaði í dag, til dæmis við ræktun bómullar og í verksmiðjum.
|
HVER BÝR TIL FÖTIN OKKAR?Fólkið sem vinnur í verksmiðjunum hefur aðeins samning um tímabundna vinnu, þannig er auðvelt að reka fólk ef það kvartar eða tekur þátt í verkalýðssamtökum. Verkafólkið sem jafnvel eru börn, er mjög fátækt vegna þess að það fær svo lág laun fyrir vinnuna. Þau þurfa að vinna mjög mikið til að eiga fyrir mat og vinnustaðurinn er oft mjög slæmur. Þannig er hægt að hafa fötin ódýr til þess að fólkið í ríkari löndum kaupi meira. Miklu meira en það þarf og er það einmitt það sem þeir sem framleiða vöruna vilja.
|
Barnaþrælkun og mansal eru vanmetið vandamál í mörgum stærstu textílframleiðslulöndunum
HVER ERU LAUN ÞEIRRA?Verkafólk í fataverksmiðju í Kambódíu fær 533 kr. í laun fyrir dag hvern. Eftir að hafa greitt fyrir brýnustu nauðsynjar, s.s. húsnæði, rafmagn, vatn, gas og ferðir til og frá vinnu eru 49 kr. eftir. Það gefur auga leið að það dugar engan veginn fyrir öllu því sem nútímafólk þarfnast. Ef fólkið sem vinnur við framleiðsluna lifði eins og við í ríkari löndunum þyrfti stuttermabolur sem kostar 1.500 kr. út í búð að kosta a.m.k. 5.000 kr. Ef það væri þannig myndum við örugglega ekki kaupa alltof marga!
|
|
|
AÐSTÆÐUR ÞEIRRAMargir sem vinna í fataverksmiðjunum í Kambódíu hafa neyðst til að flytja úr dreifbýli til borga til að fá launaða vinnu í fataverksmiðjum. Vinnan sem þeim stendur til boða er oft versta vinnan; óhrein, hættuleg og niðurlægjandi. Vinnuaðstæður eru ófullnægjandi og fólkið neyðast til að vinna langa vinnudaga allan ársins hring til að einfaldlega vinna sér nóg inn til að lifa af. Vegna mjög lágra launa lifa þau við fátækt og óhreinar aðstæður. Laun þeirra bjóða aðeins upp á allra ódýrasta húsnæðið sem þau verða að gera sér að góðu - en reyna að gera það besta úr því. Flest starfsfólk hefur ekki orlof, frí eða annað sem við þekkjum eins og aðgang að heilsugæslu.
|
"Milljónir manna framleiða fötin okkar. Margir þeirra búa við mikla fátækt, vondan aðbúnað og hættu. Við getum breytt því!"
GAGNLEGAR VEFSÍÐUR UM FATAIÐNAÐINN:
- https://cleanclothes.org/ : Alþjóðlegt bandalag stofnað til að bæta starfsskilyrði og styrkja starfsmenn í alþjóðlegum fataiðnaði og vinna að því að grundvallarréttindi séu virt. Vinna einnig að því að fræða neytendur, fyrirtæki og ríksstjórnir um þessi málefni.
- https://www.goodguide.com/#/: GoodGuide veitir neytendum upplýsingar um vörur til að hjálpa við að taka upplýstar ákvarðanir við innkaup.
- https://www.loveyourclothes.org.uk/ : Ýmis ráð til að draga úr umhverfisáhrifum fatnaðar og textíls.
- https://www.traid.org.uk/ : Bresk góðgerðarsamtök sem vinna að því að koma í veg fyrir fataúrgang og minnka fatasóun.
- https://remake.world/ : remake eru alþjóðleg hagsmunasamtök sem berjast fyrir sanngjörnum launum og loftslagsréttlæti í fataiðnaðinum.