LEIÐBEININGAR FYRIR KENNARA
List og verkgreinar henta sérlega vel fyrir menntun til sjálfbærni og auðveldlega mætti halda því fram að textílmennt í íslenskum skólum hafi alltaf falið í sér sjálfbærnimenntun. List og verkgreinar hvetja og kenna nemendum að gera hlutina sjálfir, að bjarga sér. Nú, á tímum neysluhyggju þegar flest allt er keypt tilbúið og minna gert á heimilum, hefur þetta hlutverk aldrei verið mikilvægara. Að kenna vinnubrögð sem nýtast til að minnka neysluna og gera hlutina frekar sjálf; bæta, laga, nýta, breyta og endurskapa. Að þjálfa huga og hönd, að finna ánægjuna með eigin sköpun og valdeflinguna sem fylgir því að búa eitthvað sjálfur til sem skiptir máli. Að öðlast skilning á því að það þarf ekki alltaf að vera að flýta sér og að góðir hlutir taka tíma. Að upplifa flæðið og rónna sem felst í því að vinna með höndunum, nokkuð sem getur verið erfitt að upplifa í miklu áreiti neyslusamfélagsins.
Mikilvægi list-og verkgreina felst auk þess í því að öðlast raunveruleg tengsl við hluti sem við notum öll og öðlast skilning á því hvernig og úr hverju þeir eru gerðir. Að skynja að allt sem við notum kemur með einum eða öðrum hætti úr náttúrunni getur leitt til skilnings á nauðsyn þess að fara vel með hana og að temja sér sjálfbærari lífshætti. |
FRÆÐSLUEFNIÐ |
VERKEFNIN |
Fræðsluefnið er nokkurskonar inngangur af verkefnunum. Til þess að geta gripið til aðgerða er nauðsynlegt að skilja vandann. Fræðsluefnið fjallar um neyslu, úrgang, mengun í textíliðnaði, skynditísku, fatasóun og sjálfbæra tísku. Því er ætlað að stuðla að bættri siðferðiskennd og hvetja til gagnrýnnar hugsunar á sviði neyslu- og umhverfishegðunar sem getur leitt til sjálfbærari lífshátta. Fjallað er um nýja hreyfingu barna og ungmenna í aðgerðum í loftslagsmálum og getu þeirra til að hafa áhrif í ýmsum málum sem snúa að sjálfbærni. Bent er á leiðir og góð ráð til að snúa þróuninni við með breyttum lífsháttum og gildum.
Framsetning fræðsluefnisins er undir kennaranum komið og veltur á aldri og þroska nemenda en hugmyndin er að það sé nýtt til að vekja umræðu í tengslum við verkefnin. |
Verkefnin eru af ýmsum toga. Þau fjalla um nýtni, endurvinnslu og endurgerð á textílúrgangi og fleiru sem ekki er lengur í notkun og yrði annars hent. Til dæmis fatnaður, rúmföt, dúkar, umbúðir, afgangar, efnisbútar, afklippur, bönd og spottar úr sem ekki er hægt að nýta í önnur verkefni. Nokkur verkefni hafa náttúru og umhverfi að leiðarljósi og miða að því að auka tengsl nemenda við raunveruleikann, náttúruna og umhverfið sem er mikilvægur þáttur sjálfbærni. Sagt og sýnt er frá nokkrum verkefnum sem eru samfélagsmiðuð og hafa að markmiði að gefa af sér, vekja samhyggð ásamt því að vera valdeflandi. Mörg verkefnanna er auðvelt er að vinna samþætt með öðrum námsgreinum.
Aðlaga má flest verkefnin að öllum námsstigum grunnskólans. |
TENGSL VIÐ AÐALNÁMSKRÁ
Í Aðalnámskrá grunnskóla segir um grunnþætti menntunnar:
"Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það. (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, bls.16). Námsvefurinn "Gera sjálfur" tengist öllum grunnþáttum menntunar. Fræðsluefnið snertir þá alla en verkefnin tengjast fyrst og fremst sjálfbærni og sköpun. Þetta skarast samt að sjálfsögðu og oft er unnið með fræðsluefnið og verkefnin samhliða. SJÁLFBÆRNI"Sjálfbærni snýst um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Sjálfbærni felur í sér virðingu fyrir umhverfinu, ábyrgð, heilbrigði, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti, ekki bara í nútíma heldur og gagnvart komandi kynslóðum. Þannig er óhugsandi að unnt sé að stuðla að mannréttindum án þess að jafnframt sé leitað eftir sjálfbærni og jafnvægi í þróun samfélagsins. Einnig segir: "Menntun til sjálfbærni, jafnréttis, lýðræðis- og mannréttinda miðar að því að börn og ungmenni skilji samfélagið eins og það er og hefur þróast. Jafnframt miðar þessi menntun að því að börn og ungmenni verði fær um að taka þátt í að móta samfélagið og öðlist þannig sýn til framtíðarinnar og hugsjónir til að beita sér fyrir" (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, bls. 17-18).
SKÖPUN"Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun er að sjá fyrir það óorðna og framkvæma það. Sköpun byggist á forvitni, áskorun, spennu og leit. Glíman við viðfangsefnið og það að finna lausn getur verið umbun sköpunarinnar í sjálfu sér" (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, bls. 24).
|
MENNTUNARGILDI LIST- OG VERKGREINA"Menntun í list- og verkgreinum getur stuðlað að bættu siðferði og þjóðfélagslegri ábyrgð nemenda. Þær eru vettvangur menntunar til sjálfbærni þar sem nemendur vinna með samábyrgð, tilfinningar sínar og annarra, samhengi við aðra menningarheima og eigið umhverfi og náttúru. Það er grunnurinn að velferð þeirra og virkni í mótun samfélagsins. Megintilgangur með námi í list- og verkgreinum í grunnskóla er að allir nemendur kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á verkkunnáttu, sköpunarkraft, samhæfingu hugar, hjarta og handar og margar, ólíkar tjáningarleiðir. Þar fá þeir tækifæri til að skapa hluti í handverki, vinna með tákn, tóna, matarmenningu og líkamann í tíma og rúmi og tengja þannig milli hugmyndar, verka og hluta. Allt þetta þroskar og eykur hæfni fólks til að tengja milli hlutbundinnar og óhlutbundinnar hugsunar og takast á við síbreytilegan heim á persónulegan, gagnrýninn og skapandi hátt. Jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms stuðlar að jafnrétti nemenda til að finna hæfileikum sínum farveg" (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011,bls. 141) .
|
TENGSL VIÐ MARKMIÐ SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA UM SJÁLFBÆRA ÞRÓUN
Íslendingar eru aðilar að heimsmarkmiðunum og þurfa að leggja sitt af mörkum til að ná þeim fyrir árið 2030.
"Gera sjálfur" tengist mörgum heimsmarkmiðanna og tenglar fyrir þau heimsmarkmið sem tengjast efninu eru á viðkomandi síðum. Ef ýtt er á hnappinn birtast markmiðin. |
TENGSL VIÐ MARKMIÐ VERKEFNISINS SKÓLAR Á GRÆNNI GREIN
Samkvæmt UNESCO eru Skólar á grænni grein stærsta innleiðingartæki menntunar til sjálfbærni í heiminum í dag.
"Gera sjálfur" samræmist 2 af 5 markmiðum verkefnis Landverndar um Grænfána skóla:
|