SJÁLFBÆRNI
Sjálfbærni felur í sér virðingu fyrir umhverfinu,
ábyrgð, heilbrigði,
lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti
ábyrgð, heilbrigði,
lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti
HVAÐ ER SJÁLFBÆRNI?
Sjálfbærni felst í því að nýta og um leið að halda okkar náttúrulega umhverfi heilbrigðu. Hugtakið sjálfbærni er notað í tengslum við hugsunina um afleiðingar þess sem við gerum í dag á hag og velferð manna og náttúru í framtíðinni. Í sjálfbærum samfélögum er höfuðáherslan á að bæði borgurunum og náttúrunni líði vel.
Öll höfum við ákveðnar grunnþarfir sem við þurfum að uppfylla til að lifa mannsæmandi lífi. Grunnþarfirnar eru t.d. matur, húsaskjól, föt, heilsa og menntun. Það er samt langt því frá að allir jarðarbúar búi við þessi sjálfsögðu mannréttindi og bilið á milli þeirra sem mest hafa og þeirra sem minna hafa er stórt. Það má því segja að sjálfbærni snúist um það að jafna muninn á milli þeirra sem hafa það best og þeirra sem hafa það verst án þess að það bitni á auðlindum Jarðar, öðru fólki eða lífverum. |
Sjálfbærni felur þannig í sér virðingu fyrir umhverfinu, ábyrgð, heilbrigði, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti, ekki bara í nútíma heldur og gagnvart komandi kynslóðum.
SJÁLFBÆRT LÍF FYRR Á TÍMUMÞað mætti segja að jarðarbúar hafi lifað sjálfbæru lífi þar til fyrir rúmum 200 árum. Kynslóð fram af kynslóð lifðu menn að mestu í takt við umhverfi sitt og náttúru. Náttúruauðlindir voru nýttar í hófi, flestir lifðu af og í tengslum við náttúruna, hófsömu lífi þar sem allir hlutir voru vel nýttir.
Flest allt sem þurfti gerði fólk sjálft og að kunna til verka var nauðsynlegt til að geta bjargað sér dagsdaglega. Frá því að iðnbyltingin hófst og fram að okkar tímum hefur framleiðsla og neysla aukist jafnt og þétt. Nú er svo komið að neysla jarðarbúa er eitt stærsta vandamál Jarðarinnar. Vandamálin sem fylgja þessari gegndarlausu neyslu eru fjölmörg; mengun af ýmsu tagi, ójöfnuður og misskipting gæða; þeir fátæku framleiða á meðan þeir betur settu neyta. |
ÓSJÁLFBÆRT LÍF SAMTÍMANS
Andstæðan við sjálfbært líf forfeðranna er ósjálfbært líf nútímans, þar sem gengið er á náttúruna og náttúruauðlindir með ofnýtingu og mengun þannig að náttúruleg endurnýjun getur ekki átt sér stað. Í stað þess að sjá sjálfur um sínar dagsdaglegu þarfir er nútímafólk neytendur, án hófs þar sem flestir hlutir eru nánast einnota og miklu er hent. Hófsemi og nýtni eru ekki í hávegum haft hjá nútímafólki enda virðist sem kunnátta til þess að gera hlutina sjálfur; laga, breyta og nýta sé á undanhaldi. |
NÁTTÚRUAUÐLINDIR |
Mannfólkið er ekki að nýta náttúruauðlindir Jarðarinnar á sjálfbæran hátt. Ýmis eiturefni sem við notum skaða auk þess náttúruna á marga vegu. Bílar, skip, flugvélar og verksmiðjur spúa t.d. skaðlegum efnum út í andrúmsloftið sem veldur loftslagsbreytingum. Sums staðar á Jörðinni er ástandið svo slæmt að fólk á erftitt með andardrátt. Loftslagsbreytingar og hlýnun á Jörðinni mun valda margskonar vandamálum. Veðrið breytist. Sums staðar verður mjög heitt sem veldur þurrkum svo erfitt verður að rækta. Jöklarnir í heiminum bráðna hraðar sem gerir það að verkum að sjávarmál hækkar sem veldur flóðum víðsvegar.
|
Náttúruauðlindir eru allt það sem við mannfólkið nýtum úr náttúrunni. Í raun og veru kemur allt sem við notum með einum eða öðrum hætti úr náttúrunni. Dæmi um náttúruauðlind er vatn. Menn bjuggu ekki til vatn, en við notum það til drykkjar, baða og svo framvegis. Önnur náttúruauðlind er olía. Við dælum olíu upp úr jörðinni og notum hana til að búa til eldsneyti fyrir bíla, skip, flugvélar og allskonar framleiðslu. Fiskurinn í sjónum og landið sem við notum til landbúnaðar og ræktunar eru náttúruauðlindir. Náttúruauðlindir eyðast eins og allt annað sem við notum. Ef við lifum á þann hátt sem eyðileggur eða ofnýtir náttúruauðlindir okkar er það ekki sjálfbært.
|
Margar dýrategundir eiga erfitt með þessar breytingar og fleiri og fleiri tegundir deyja út. Eiturefni sleppa einnig út í drykkjarvatn, hafið og í jörðina frá margskonar framleiðslu og landbúnaði. Náttúruauðlindir er einnig hægt að ofnýta, þ.e. að nota þær svo mikið að ekkert verður eftir. Ef við notum t.d. alla olíuna sem finnst í jörðinni getum við ekki notað hana lengur.
|
TAKTU PÚLSINN Á JÖRÐINNI
Loftslagsbreytingar hafa þegar haft áhrif á jörðina. Veistu hversu mikil áhrif? HÉR GETUR ÞÚ GISKAÐ OG SÉÐ STAÐREYNDIR https://www.ruv.is/loftslag |
SJÁLFBÆRIR LÍFSHÆTTIR
Almennt er nú viðurkennt að hegðun mannsins á Jörðinni beri skýr merki ósjálfbærni. Hugmyndir okkar sem búum í ríkari hlutum heimsins um „hið góða líf“ hefur leitt til neyslu sem er miklu meiri en Jörðin þolir. Þótt hluti mannkyns noti auðlindir og umhverfi Jarðar í óhófi gera það ekki allir en bera samt sem áður skaðann. Mengun og hlýnun Jarðar fer ekki eftir landamærum, heldur bitna afleiðingarnar á öllum heimshlutum. Verkefni Jarðarbúa felst í því að breyta hugsun sinni og athöfnum þannig að takmörk náttúrunnar séu virt bæði í orði og verki.
Sjálfbærni snertir þannig ekki eingöngu umhverfismál heldur einnig félagslegt réttlæti, heilsu og velferð, menningarmál og efnahagslíf. Það snýst um vitund um þau takmörk sem náttúran setur umsvifum fólks. Einnig felst í hugtakinu viðurkenning á því að mannkyn allt stendur frammi fyrir flóknu samfélagslegu verkefni ef takast á að sætta hugmyndir fólks og væntingar um „hið góða líf“ við þolmörk náttúrunnar. |
|
SJÁLFBÆRNI FELUR Í SÉR AÐ LIFA LÍFINU ÁN ÞESS AÐ SKAÐA NÁTTÚRUNA EÐA ANNAÐ FÓLK
|
"VIÐ EIGUM EINUNGIS EITT LÍF OG EINA JÖRÐ"
HVAÐ ER SJÁLFBÆR ÞRÓUN?
"Sjálfbær þróun snýst meðal annars um að hlúa að náttúrunni, nýta auðlindir hennar á ábyrgan hátt og tryggja mannréttindi komandi kynslóða."
"Margir hafa ákveðið að breyta lífsstíl sínum og tekið þar með ábyrgð á neyslu sinni."
SJÁLFBÆRT LÍF FORFEÐRANNAFyrr á öldum bjuggu langflestir Íslendingar á sveitabæjum og lifðu með þeim hætti sem kalla mætti sjálfbæran. Líf forfeðra okkar gekk að mestu út á að sjá sér og sínum fyrir mat, húsaskjóli, klæðum og öðrum nauðsynjum. Þannig framleiddi fólk sjálft flest það sem við kaupum í nútímanum. Byggði sjálft sín hús og híbýli og flest allt sem tilheyrir heimilinu. Veiddi sér til matar, hélt bústofn og ræktaði jörðina. Nýtti ull og önnur náttúruefni til þess að vinna og spinna þráð sem síðan var notaður til þess að vefa, prjóna og sauma klæði. Allt heimilisfólk tók þátt í þessum störfum. Allir þurftu að kunna til verka til að geta bjargað sér og þeir ungu lærðu af þeim eldri. Allir hlutir voru vel nýttir, lagaðir og bættir ef þeir biluðu. Fáir hlutir voru keyptir og þá yfirleitt með vöru eða vinnuskiptum og umbúðir varla notaðar. Úrgangur var svo til enginn og mengun varla til. Fólkið lifði í miklum tengslum við náttúruna og í sátt við hana.
|
NEYSLUSAMFÉLAG NÚTÍMANS
Það var í raun ekki fyrr en við lok nítjándu aldar, með fyrstu iðnbyltingunni og jafnvel enn síðar á Íslandi sem lifnaðarhættirnir tóku að breytast og þá breyttust þeir hratt. Borgir tóku að myndast og smám saman fóru verksmiðjur að framleiða flest sem áður var gert á heimilum. Breytingarnar hafa haft í för með sér mikið tjón fyrir Jörðina. Náttúruauðlindir hafa verið ofnýttar og mikil mengun fylgir verksmiðjunum og flutningi á vörum á milli heimshorna. Í stað þess að framleiða sjálf það sem við þurfum að nota dags daglega breyttumst við í neytendur sem kaupum það sem við þurfum. Um leið mætti segja að við höfum aftengst náttúrunni og hætt að velta fyrir okkur hvaðan hlutirnir koma og hvernig þeir eru gerðir. Hverri iðnbyltingu hefur fylgt aukin neysla og því sem henni fylgir; úrgangur, mengun, ójöfnuður og loftslagsbreytingar sem er stærsta vandamál samtímans. Nú er ástandið orðið mjög slæmt fyrir Jörðina og við þurfum að finna leiðir til að laga það og snúa aftur til vistvænna lífs.
|
"Einhvers staðar innra með okkur öllum býr KRAFTURINN til að breyta heiminum"
- Roald Dahl -
|
|
GAGNLEGAR VEFSÍÐUR UM SJÁLFBÆRNI
https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/sjalfbaerni/16/ : Sjálfbærni, ritröð um grunnþætti menntunar.
http://landvernd.is/Portals/_default/Skjol/Handbaekur/A_graenni_grein.pdf: Ýmiss fróðleikur og kennsluefni um sjálfbærni. https://www.ecoschools.global/: Ýmiss fróðleikur og kennsluefni um sjálfbærni. http://www.unesco.org/education/tlsf/: Margmiðlunarefni um sjálfbærnikennslu. Frá Unesco fyrir kennara. https://www.overshootday.org : The earth owershoot day-ýmiss fróðleikur og kennsluefni um sjálfbærni. https://indd.adobe.com/view/b2c6261d-9777-4f4d-8a85-a5165db885c6?fbclid=IwAR2wj8yUXrqjyHiH2CVyNwR8q0rPKj_5OfnKCaEugjlWqypzopxSLiiQOVk: Handbók Ungra umhverfissinna um hagsmunagæslu fyrir umhverfið: https://www.visir.is/g/20222348701d/-vid-eigum-ad-fara-ad-hegda-okkur-meira-eins-og-ommur-okkar-og-afar-?fbclid=IwAR0Uf0YpDjqTKRiI9nwy8G6fhSPu_PeLixB7eP1xhRKCTYBErchEIULMfv0 |