ÚRGANGURUrðun og brennsla á rusli veldur því að mikið af eiturefnum fer út í andrúmsloftið, í jarðveginn og í vatnið okkar. Auk þess safnast rusl, ekki síst plastefni, upp í höfunum og hefur slæm áhrif á lífríki.
Allur úrgangur frá okkur mönnunum hefur slæm áhrif á allt líf og því mikilvægt að gera allt sem hægt er að gera til að minnka hann. |
ALLIR HLUTIR SEM VIÐ KAUPUM ENDA AÐ LOKUM SEM ÚRGANGUR
" Því meira sem við kaupum, því meira verður ruslið! "
UMHVERFISÁSKORUNÚrgangur er ein stærsta umhverfisáskorun heimsins. Það þýðir að við hendum svo miklu að það er orðið erfitt að losna við það allt. Þetta er frekar nýtt vandamál vegna þess að svona hefur þetta ekki alltaf verið. Líf nútíma fólks í ríkari hlutum heims einkennast af mikilli neyslu og henni fylgir allur þessi úrgangur. Því meira sem við kaupum, þeim mun meira verður ruslið.
|
EKKERT AF ÞVÍ PLASTI SEM FRAMLEITT HEFUR VERIÐ HEFUR BROTNAÐ NIÐUR TIL FULLS!Plast er hluti af daglegum athöfnum flestra. Við framleiðslu á plasti er að mestu notuð olía og jarðgas en einnig efni eins og kol, sellulósi og salt. Eins og svo margt annað sem við erum að nýta frá Jörðinni þá eru olíuauðlindir okkar ekki endurnýjanlegar. Sem þýðir að á endanum mun auðlindin klárast. Þess vegna er mikilvægt að fara vel með okkar dýru olíuauðlind og eyða henni ekki í efni sem síðan er hent eftir aðeins eina notkun. Vörur úr plasti geta verið margskonar; sumar gerðar til að nota lengi, eins og öryggishjálmar, barnabílstólar eða sjónvörp, en aðrar eins og umbúðir eru nánast einnota.
|
Notkunartími einnota plasts er mjög stuttur. Einnota umbúðum er hent um leið og búið er að drekka vatnið, kaffið, borða brauðið, ávextina og fleira. Að meðaltali er talið að hver plastpoki sé notaður í um tuttugu mínútur og endi síðan í ruslinu eða úti í náttúrunni. Plast er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í sífellt smærri plasthluta í náttúrunni, kallað örplast. Stór hluti úrgangs endar úti í náttúrunni, á víðavangi, í landfyllingum og í hafinu og er plast þar eitt stærsta vandamálið. |
Plast er það létt efni að það flýtur og getur því borist hundruða kílómetra í vötnum og höfum og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum. Gríðarstórir flákar af plasti hafa myndast þar sem hafstraumar hafa borið það, í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi. Það er síðan fast og myndar svokallaðar plasteyjar. Það er ekki vitað með vissu hvort plast brotni til fulls niður í náttúrunni og ef það gerist getur það tekið mörg þúsund ár! Því hefur ekkert af því plasti sem framleitt hefur verið í heiminum náð að brotna niður til fulls. Plastið molnar í örsmáar plastagnir sem valda ekki síður skaða fyrir umhverfið en stærri plasteiningar. Plastagnirnar enda í lífverum, hlaðast upp ofar í fæðukeðjunni og geta haft alvarlegar afleiðingar á heilsu manna og dýra.
|
" TIL ÞESS AÐ SKILJA SEM MINNST RUSL EFTIR SIG
ÞARF AÐ KAUPA MINNA AF ÓÞARFA HLUTUM OG ENDURNÝTA ÞAÐ SEM HÆGT ER. "
|
|
" MEÐ ÞVÍ AÐ FLOKKA OG SKILA TIL ENDURVINNSLU MINNKUM VIÐ ALMENNAN ÚRGANG SEM FER TIL URÐUNNAR OG NÝTUM VERÐMÆTI "
sorpa.is/einstaklingar
FLOKKUN OG ENDURVINNSLATil þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum úrgangs er mikilvægast að draga úr myndun hans með því að nýta hluti vel og forðast einnota hluti. Síðan auðvitað að leggja áherslu á að mest af því sem hent er komist í endurvinnslu, þ.e. flokka sem mestan úrgang og skila á endurvinnslustöðvar Sorpu. Langflest sem við notum á degi hverjum er hægt að endurvinna. Ef nefna ætti eitthvað sem ekki er hægt að endurvinna þá væri það til dæmis tyggigúmmí, svampur eða einnota bleyjur. Allt sem fer óflokkað í ruslatunnuna hjá okkur endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni. Flokkun og endurvinnsla er því algjört lykilatriði í því að forða hráefnum frá því að verða mengunarefni. Úrgangurinn okkar er hráefni sem við getum endurunnið aftur og aftur. Það er undir okkur komið að hráefnið sem til er á Jörðinni haldist áfram í notkun í stað þess að þurfa sífellt að sækja nýtt hráefni.
|
SPILLIEFNIMjög mikilvægt er að flokka og skila spilliefnum svo þau fari ekki út í umhverfi okkar. Spilliefni eru eiturefni og eru því skaðleg öllu lífi.
|