BÖRN GETA HAFT ÁHRIF |
Til þess að sjálfbær þróun geti átt sér stað er mikilvægt að búa yfir gagnrýninni hugsun og hafa trú á eigin getu til aðgerða. Börn víða um heim hafa sýnt í verki að þau vilji og geti tekið þátt í þeirri þróun. Sífellt fleiri dæmi eru um að börn og ungmenni láti sig varða um óréttlæti og aðgerðarleysi í mikilvægum málefnum sem hafa með líf okkar og framtíð á Jörðinni að gera
|
SKÓLAVERKFALL FYRIR LOFTSLAGIÐÞegar Greta Thunberg ávarpaði ráðamenn heimsins á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi í desember 2018 hafði hún sýnt það og sannað fyrir börnum og ungmennum að þau geta virkilega haft áhrif. Eftir ræðu hennar hafa þúsundir skólanema um allan heim farið í verkfall til þess að mótmæla aðgerðarleysi í stjórnvalda í loftslagsmálum og krefjast þess að ráðamenn heimsins framfylgi eigin samþykktum um aðgerðir.
Íslensk börn og ungmenni láta ekki sitt eftir liggja og hafa safnast saman á Austurvelli og mótmælt aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum á hverjum föstudegi. "Þetta er ekki bíómynd þar sem allt mun lagast á endanum", sagði Eiður Breki Bjarkarson, 12 ára mótmælandi í viðtali í dagblaði. "Við þurfum að gera þetta sjálf." |
|
FYRIRMYNDNú vita allir hver Greta Thunberg er, 17 ára sænsk stelpa sem hefur háð árangursríka baráttu í loftslagsmálum og fyrir betri heimi. 15 ára, í ágúst 2018 hóf hún aðgerðir sínar og sat ein síns liðs fyrir utan sænska þingið með skilti sem á stóð "Skólaverkfall fyrir loftslagið". Aðgerðir hennar hafa vakið heimsathygli, hún talar um þessi mál umbúðarlaust um heim allan og er ófeimin við að gagnrýna og skamma ráðamenn heims fyrir aðgerðarleysi. Hún á stóran þátt í þeirri vitundarvakningu sem nú á sér stað í þessum málum meðal almennings. Hún er góð og mikilvæg fyrirmynd fyrir börn og ungmenni sem sjá að maður þarf ekki að vera fullorðinn til að taka afstöðu og taka málin í sínar hendur. Í dag fara tugþúsundir barna og ungmenna að dæmi hennar, breyta sínum lífstíl og mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum á hverjum föstudegi.
|
MIKILVÆGT AÐ HLUSTA OG TAKA MARK Á BÖRNUMEfnt var til fundar í tilefni af því að þrjátíu ár eru frá því að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur. Fundurinn bar yfirskriftina: Áhrif barna á eigin réttindi og samfélag. Ungmennin á fundinum voru sammála um að fullorðnir ættu að hlusta á það sem þau hafa fram að færa. Börn búa yfir mörgum hugmyndum sem fullorðna fólkinu myndi aldrei detta í hug, segir nemandi í níunda bekk. „Það skiptir engu máli hvort við tölum um þetta eftir tíu ár, ef við gerum ekki neitt,“ segir Ida Karólína Harris, nemandi í Laugalækjaskóla. Skólinn bauðst til þess að breyta skrópinu í leyfi, en hún vildi það ekki. „Nei, því skrópið er líka það sem þrýstir á stjórnvöld. Það er það sem við erum í rauninni að gera og það er gagnslaust ef það er ekki að virka,“ segir Ida.
|
|
Börn og ungmenni hafa vakið athygli á og barist fyrir ýmiskonar óréttlæti sem þau sjá í samfélaginu. Nokkur dæmi eru um að íslensk börn hafa reynt að koma til hjálpar og sýnt samhyggð þegar þau upplifa að senda eigi skólasystkin og hælisleitendur á flótta aftur út í óvissuna, þegar þeim hefur verið synjað um vernd hér á landi. Þegar vísa átti Zainab, skólasystur nemenda í Hagaskóla úr landi tóku þau málin í sínar hendur, mótmæltu og söfnuðu undirskriftum þar sem farið er fram á að hún og fjölskylda hennar fengi að vera hér áfram og lifa öruggu lífi. Eftir þrýstinginn frá Hagskælingum og almenningi lét dómsmálaráðherra breyta reglugerð þannig að Útlendingastofnun gat veitt Safari-fjölskyldunni efnislega meðferð á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi. Fyrir þetta framtak hlaut réttindaráð Hagaskóla viðurkenningu Barnaheilla.
|
|
ANTIRASISTARNIRÞær Valgerður Kehinde Reynisdóttir, Kristín Taiwo Reynisdóttir og Anna María Allawawi Sonde stofnuðu reikninginn Antirasistarnir á Instagram þar sem þær fræða fólk um rasisma á Íslandi og segja frá sinni upplifun af honum.
Á síðunni má finna alls kyns efni, til dæmis um það hvernig foreldrar geta frætt börnin sín, hvað er viðeigandi á öskudag og hrekkjavöku, um forréttindablindu og hvernig fólk geti verið bandamenn. Nýlega voru þær voru tilnefndar til norræna verðlauna, í flokki ungra frumkvöðla. Verðlaunin eru hálf milljón og að halda fyrirlestra í öðrum Norðurlöndum um síðuna. Þær telja að það þurfi verulegt átak í skólakerfinu til að ávarpa rasisma almennilega og að tryggja þurfi að allir fái fræðslu, bæði nemendur sem og starfsfólk skólanna. |
UNGI BLAÐAMAÐURINN FRÁ PALESTÍNU
Janna Jihad er 15 ára gömul og býr á Vesturbakkanum, sem er hernuminn af Ísrael. Lífið þar er langt frá því að vera venjulegt vegna kerfisbundinnar mismununar. Janna vill aðeins eiga venjulega barnæsku.
Janna er á meðal þeirra allra yngstu sem fengið hafa fréttamannapassa, aðeins 13 ára gömul. Aðeins 7 ára hóf hún að að nota síma móður sinnar til að taka upp og sýna heiminum grimmilega mismunun sem samfélag hennar þarf að þola af hálfu ísraelska hersins. Hún fjallar um þá kúgun sem Palestínubúar hafa mátt þola af hálfu ísraelska hersins sem oft hefur verið banvæn. Henni hefur verið hótað lífláti vegna baráttu sinnar og samtökin AMNESTY INTERNATIONAL vinna að því að ísraelsk stjórnvöld veiti Jönnu vernd fyrir mismunun og ofbeldi. |
|
|
FRUMKVÖÐULLINN WILLIAM KAMKWAMBAWilliam Kamkwamba frá Malawí var 14 ára þegar hann ákvað að bæta líf fátækrar fjölskyldu sinnar með því að byggja vindmyllu til að sjá heimilinu fyrir rafmagni. Hann las bækur á bókasafninu og prófaði sig áfram við verkið. Vindmyllan er 5 metra há og unnin úr ýmsu rusli ss. brotnu hjóli, viftu úr dráttarvél, gömlum dempara og trjágreinum. Vindmylluna tengdi hann við rafgeymi úr bíl og dugði til að knýja fjórar ljósaperur og hlaða farsíma nágrannanna. Hann lét ekki þar við sitja og fleiri verkefni hafa m.a. verið í hreint vatn, malaríuvarnir, sólarorka og lýsing fyrir heimilin sex í fjölskyldusamstæðu hans, djúpt vatnsból með sólardrifinni dælu fyrir hreint vatn og áveitukerfi. Nú hefur hann menntað sig og lætur áfram gott af sér leiða.
|
GÓÐGERÐADAGURINN GOTT MÁL
Gott mál er góðgerðaviðburður sem haldinn er á hverju ári af nemendum og starfsfólki Hagaskóla í Reykjavík. Þennan dag er skólinn opinn fyrir gesti og boðið upp á ýmis konar viðburði. Tónlistaratriði, kaffihús, veitingastaði, nytjamarkað og hvað annað sem nemendum dettur í hug. Nemendur leggja mikla vinnu á sig til að láta gott af sér leiða og gera daginn sem skemmtilegastan. Viðburðurinn er vel sóttur og vekur ánægju og kærleik meðal gesta og nemenda. Nemendur skipuleggja sjálfir fjáraflanir og velja styrktarmál. Óhætt er að fullyrða að nemendur læra margt af því, efla samvinnu sína og fá góða tilfinningu með því að láta gott af sér leiða. Hefð er fyrir því að nemendur styrki tvö málefni sem þeir greiða atkvæði um. Árið 2019 var samþykkt að styrkja heimili fyrir munaðarlaus börn í Kenýa og vegna mikillar umræðu um náttúruvernd og loftslagsmál var ákveðið að styrkja einnig umhverfissamtökin Landvernd.
|
FLEIRI UNGMENNI MEÐ RÖDDMörg fleiri dæmi eru um börn og unglinga sem hafa barist fyrir bættum heimi. Hin pakistanska Malala Yousafzai var aðeins 11 ára þegar hún hóf baráttu fyrir réttindum barna til að mennta sig undir ógnarstjórn Talibana. Aðeins 14 ára gömul varð hún fyrir árás vegna baráttu sinnar og skotin í höfuðið á leið heim úr skólanum. Það þótti kraftaverk að hún skyldi lifa af. Hún hefur haldið áfram baráttu sinni og hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 2014 fyrir baráttu sína gegn undirokun barna og unglinga og fyrir rétti allra barna til menntunar. Hún er yngsti handhafi þeirra verðlauna og verðlaunaféð lét hún renna til framhaldsskóla fyrir stúlkur í Pakistan. Hún heldur baráttu sinni áfram.
|
BARÁTTUKRAKKARÍ útvarpsþættinum "Í ljósi krakkasögunnar" á KrakkaRúv er oft fjallað um áhugaverða hluti. T.d. er hér linkur á þátt sem fjallar um baráttukrakka. Fjallað er um nokkra einstaklinga sem hafa upplifað óréttlæti eða bara brenna fyrir betri heimi. Þau eiga það sameiginlegt að bíða ekki eftir að einhver annar geri eitthvað, heldur ákveða að vekja athygli á málefnum og berjast sjálf fyrir þeim. Þau eru sem sé aktívistar.
Það er oft notalegt að hlusta þegar verið er að vinna, t.d. að prjóna eða sauma út. |