VERKEFNI UNNIN ÚR ENDURNÝTANLEGUM EFNIVIÐi |
Það er stundum eins og sköpunargáfan fari á flug þegar nemendur fá að vinna úr endurvinnanlegum efniviði. Slíkur efniviður reynir verulega á skapandi hugsun, úrlausnir og útsjónarsemi. Mikilvægur hluti af sjálfbærnimenntun er að fræða nemendur um úrgang. Að til þess að minnka úrgang þurfum við að draga úr neyslu og nýta hlutina betur. Að það sem við köllum rusl og hendum oft hugsunarlaust getum við oft notað sem dýrmætt hráefni í eitthvað nýtt. Þegar nemendur fá þjálfun í að vinna með slíkt hráefni eru meiri líkur á því að þau fari að hugsa á annan hátt um neyslu og úrgang.
Mér finnst mikilvægt að biðja þau um að koma með efni að heiman, það sendir ákveðin skilaboð til heimilanna. Eldri nemendur geta komið með fatnað sem þarf að laga, breyta eða endurhanna sem eitthvað nýtt. Reynsla mín af því að vinna með endurnýttan efnivið, er að slík vinna ýti undir lausnamiðaða skapandi hugsun. Nemendur sýna meira frumkvæði og sjálfstæði og þeim finnst nær undantekningarlaust mjög gaman að fást við þessi verkefni. Einnig kvikna hugmyndir um ýmislegt sem hægt væri að bralla heima, jafnvel þó þar sé annars lítið um efni til skapandi starfa. |
GARNAFGANGARÍ textílstofunni safnast upp afgangar af garni og stundum kemur bæði starfsfólk og foreldrar með garnafganga og prjónadót sem á að henda. Þetta er tilvalið að nýta í lítil verkefni, fyrir stóra og smáa. Í lítil vefverkefni hjá yngstu nemendunum sem þau festa á trjágrein sem þau tína upp á leiðinni í skólann. Í puttaprjón sem verður síðan að einhverju, eins og hárbandi, armbandi, hálsmeni, slöngu, fiðrildi, banana eða hverju sem þeim dettur í hug. Einnig í lítil prjónaverkefni hjá eldri nemendum. Allskyns fígúrur, lítil dýr, símahulstur, töskur, slaufur, dúskar og fleira sem nemendum dettur í hug. Stundum prjónum við litla búta sem við förum með út og saumum utanum staura eða trjágreinar til að skreyta umhverfið.
|
|
SAUMAÐ Á PAPPASPJÖLD
Það er tilvalið að nota þunnar pappaumbúðir í þetta verkefni fyrir yngstu nemendurna. Nemendur teikna mynd, t.d. af dýri á blað sem síðan er fært með kalkipappír á pappaspjaldið. Teikningin er götuð með nál og nemendur sauma línurnar og svo má lita ef vill. Nemendur læra að þekkja réttu og röngu og þjálfa að þræða nál, gera hnút og ganga frá endum.
LITLAR EFNISAFKLIPPURÞað má nýta litlar efnisafklippur í ýmislegt. Hér hafa allra yngstu börnin æft sig í að klippa í form, límt á blað og gert skemmtilegar myndir. Þau notuðu einnig garn, ull og ýmislegt dót úr safnveitunni.
|
|
SOKKAR
Gamlir sokkar henta vel í verkefni í textílmennt. Á heimilum fellur mikið til af sokkum, bæði götóttum og stökum sokkum. Sokkar eru flestir framleiddir þannig að þeir slitna fljótt og sjaldgæft að sé gert við þá eins og áður. Þess vegna er alltaf verið að henda sokkum.
Sokkar henta vel í brúður af ýmsu tagi. Fingravettlinga má einnig nýta í brúður. Brúðurgerð hentar vel sem verkefni fyrir nemendur á öllum aldri. Allir búa yfir umhyggju og jafnvel mestu prakkararnir sem trufla stundum aðra, gleyma sér í brúðugerðinni og umhyggjuseminni gagnvart brúðunni sinni og vinna vel og án vandræða. Brúðugerð úr sokkum er skemmtilegt verkefni fyrir alla aldurshópa þar sem hægt er að hafa verkefnin á mismunandi erfiðleikastigum. Handsokkabrúður, einfaldar fylltar brúður án útlima og brúður með útlimi. Sokkana má einnig nýta í allskyns fatnað fyrir brúðurnar. Nemendur velja sér sokk, skoða hann og skissa hugmyndina sína áður en þeir framkvæma. Þegar allir hafa lokið við sína brúðu gef ég nemendum tíma til að leika sér saman með þær. |
Ég bið börnin um að koma með sokka sem henda á og einnig safna ég ónýtum og stökum sokkum og nýti óskilasokka úr skólanum sem henda á. Starfsfólk í skólanum er einnig duglegt að safna og gefa sokka.
|
|
HANDSOKKABRÚÐURÞetta er lítið og einfalt verkefni sem hentar vel fyrir yngstu nemendurna. Unglingar hafa einnig unnið handsokkabrúður sem þau notuðu fyrir brúðuleikhúsverkefni í dönsku.
Nemendur nota ímyndunaraflið til að búa til fígúrur sem hægt er að leika sér með og jafnvel orðið að persónum í brúðuleikhúsi. Það er nauðsynlegt að nemendur hugsi hvernig brúðan á að vera og skissi hugmynd sína áður en þeir hefja vinnuna. Þegar allir hafa lokið við sína brúðu er hægt að halda brúðuleikhússýningu. |
EINFALDAR SOKKABRÚÐUR
Nemendur sem hafa öðlast grunnfærni í handsaumi, lært að þræða nál og sauma nokkur grunnspor, ráða vel við að gera einfalda sokkabrúðu. Þessar brúður eru gerðar úr sokknum nánast eins og hann kemur fyrir. Neðri hluti sokksins, táhlutinn er notaður í litlu brúðurnar en ef brúðan þarf að vera lengri er hællinn saumaður af (líkt og sniðsaumur) og auðvitað þarf að gera við göt ef sokkurinn er slitinn.
|
|
SOKKABRÚÐUR MEÐ ÚTLIMUM
Nemendur frá 4. bekk og eldri hafa gert flóknari sokkabrúður sem hafa útlimi. Fingravettlinga má einnig nýta í slíkar brúður. Brúðurnar eru að mestu saumaðar í höndunum en hægt er að nota saumavél í bland.
|
|
HÍBÝLAGERÐTil þess að hægt sé að vinna svona verkefni er aðgangur að safnveitu nauðsynlegur. Það er auðvelt að koma upp lítilli safnveitu. Bæði í skólanum og á heimilum safnast upp mikið magn af allskyns umbúðum úr pappa, plasti og þess háttar. Þessu er safnað saman á ákveðinn stað ásamt allskyns smáhlutum sem nýtast t.d í innanstokksmuni. Ég safna hlutum með því að hafa dollu í eldhúsinu þar sem ég safna öllu smádóti sem á að henda; töppum, litlum öskjum, dollum, íspinnum, matarprjónum og öðru sem til fellur. Það er aldrei að vita hvað hvað kemur að notum! Best er auðvitað að biðja nemendur að koma með eitthvað að heiman. Það bæði þjálfar þau í að horfa á úrgang með nýtni í huga, fylgjast með magninu, auk þess að koma skilaboðum um nýtni og úrgang til heimilanna.
|
Hugmyndir af safni fyrir híbýlagerð:
|
Annað sem þarf að hafa við hendina:
|
|
VINNAN VIÐ HÍBÝLAGERÐINAÍ þessum verkefnum gefst nemendum tækifæri til að vinna að miklu leyti sjálfstætt og hjálpast að. Það finnst mér óendalega mikilvægt því nútímabörn hafa mörg litla reynslu af verklegum störfum og fá sjaldan tækifæri til þess að prófa sig áfram þar sem tími þeirra er yfirleitt stíft skipulagður og frjáls tími lítill. Fyrir vikið hafa þau litla trú á eigin getu og vilja fá hjálp við flest sem þau taka sér fyrir hendur. Mér finnst þau viljugri til að reyna sjálf þegar unnið er með endurnýttann efnivið. Kannski vegna þess að efnið er verðlaust og því minni ótti við að mistakast. Þess vegna felst valdefling í slíkum verkefnum, nemendur finna að þau geta ýmislegt sjálf. Um leið og þau prófa sig áfram og gera tilraunir, þjálfa þau ímyndunaraflið og útsjónarsemi. Kennarinn er að sjálfögðu tilbúinn til aðstoðar ef þörf er á en hann byrjar (eins og alltaf) á því að hvetja nemandann til að reyna sjálfur. Mér finnst líka mikilvægt að hvetja nemendur til að hjálpast að; kannski er einhver annar búinn að finna lausnina á þínu vandamáli. Börnum finnst auk þess gaman að fá að leiðbeina öðrum og þannig öðlast þau meiri færni og trú á eigin getu. Þannig hef ég fengið marga góða aðstoðarkennara.
|
HÍBÝLI - NEMENDAVERK
UNNIÐ ÚR EFNISBÚTUM OG AFKLIPPUM
Efnisbútar og afklippur sem safnast fyrir í textílstofunni sem má nýta í ýmislegt. Efnisbútar henta vel til að leyfa nemendum að spreyta sig og hafa frjálsar hendur með að hanna og útfæra verkefni. Skoða bútana og velta fyrir sér hvað hægt er að gera úr þeim. Teikna og skissa hugmynd, reyna sig í sníðagerð og framkvæmd. Útkoman getur orðið skemmtileg.
|
|
ÝMSAR HUGMYNDIR FYRIR ELDRI NEMENDUR
Ýmiss önnur endurvinnslu verkefni henta þessum aldurshópi. Barnaföt eða leikföng úr efnisbútum, töskur og pokar, hekl úr efnisræmum og svo er um að gera að láta nemendur koma sjálfa með hugmyndir og gera tilraunir.
|
GAMALL FATNAÐUR OG TEXTÍLL ENDURGERÐUREldri nemendur geta gert flóknari verkefni. Fatnaður verður meira spennandi þegar nemendur komast á unglingastig. Unglingar eiga yfirleitt fulla skápa af fatnaði og um að gera að hvetja þá til að reyna að nýta það sem þau vilja ekki nota lengur og koma með fatnað sem er bilaður og læra að gera við. Ég legg áherslu á að nemendur í vali endurgeri a.m.k. eina flík. Stundum hef ég farið með nemendur í vettvangsferð á nytjamarkað og leyft þeim að velja eina flík til þess að endurhanna. Margir hafa aldrei komið í slíkar verslanir og uppgötva nýja möguleika til fatakaupa.
Einnig hef ég farið á fataflokkunarstöð Rauða krossins og keypt notaðan fatnað fyrir lítið til þess að hafa sem efnivið fyrir nemendur. Það stendur til boða fyrir skóla og tekið vel í alla endurvinnslu. Best er að hringja fyrst og panta, t.d. poka af bolum, gallabuxum eða öðru. (https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/fataverkefni/fatasofnun/). |
HEKL ÚR EFNISRÆMUM OG PLASTI
Efnisræmur eru klipptar eða rifnar niður, t.d. úr slitnum sængurverum, bómullarbolum eða hverju sem hægt er að klippa í langar ræmur. Einnig er hægt að hekla úr ónýtum nælonsokkabuxum. Mottur eða annað má hekla annaðhvort með stórri heklunál, fingrahekli eða útbúa stóra nál úr vírherðatré.
Breiddin á ræmunum er 2-4 fingur eftir þykkt efnisins. Einfalt er að setja ræmurnar saman. Um leið og ein ræman er búin er annari bætt við. Klippt er rifa langsum í ræmuna 3-4 cm frá brún bæði á þá sem er að klárast og þá sem á að bæta við. Síðan er endinn á ræmunni sem bæta á við þræddur í gegnum rifuna á endanum sem er fastur við mottuna. Hægt er að nálgast fleiri leiðbeiningar á Youtube.com ef leitað er að amish knot eða toothbrush rug. |
STAKIR, FUNDNIR EÐA ÓNÝTIR PRJÓNAVETTLINGAR, SOKKAR OG PRJÓN SEM ALDREI VAR KLÁRAÐÉg ber mikla virðingu fyrir handverki. Í því liggur mikill tími og afleitt að fleygja því bara í ruslið. Þegar maður gengur mikið rekst maður oft á vettlinga sem einhver hefur týnt, liggjandi í götunni. Ef vettlingurinn virðist hafa legið stuttan tíma þar, reyni ég að koma honum fyrir á grindverki ef einhver skildi leita hans. Ef hann er drulluskítugur er líklegt að hann hafi legið þar lengi og ólíklegt að einhver leiti hans, tek ég hann heim, hreinsa og geymi þar til ég hef fundið honum hlutverk. Fundnir vettlingar, stakir eða slitnir prjónasokkar og hálfkláruð prjónaverkefni sem hafa safnast í prjónakörfuna hafa þannig orðið að hundamottu og teppi. Gamla lopasokka er tilvalið að nýta í hestaprik.
|
|
NÝTT LÍF PEYSUNNAR Í ANDA ÝRÚRARÍÝr Jóhannsdóttir er textílhönnuður og listamaður sem hannar peysur undir nafninu Ýrúrarí. Undanfarin ár hafa verk hennar þróast yfir í endurvinnsluverkefni á notuðum peysum. Í samstarfi við fatasöfnun Rauða kross Íslands hefur Ýr endurunnið peysur sem orðið hafa fyrir hnjaski í fyrra lífi og henta ekki í sölu í Rauða kross búðirnar. Ýr hefur einnig gefið út uppskriftarbæklinga og haldið námskeið til að hvetja fólk til að spreyta sig sjálft á að gefa gömlu peysunum sínum nýtt líf. Tilvalið verkefni fyrir unglinga:-)
|
TÖSKUR OG POKAR TIL AÐ MINNKA PLASTNOTKUN |
|
Það er tilvalið verkefni fyrir nemendur á öllum aldri að sauma innkakaupatöskur og grænmetis- og ávaxtapoka fyrir heimilið og stuðla þannig að minni plastnotkun. Í töskurnar notum við allskyns efnisbúta sem safnast upp í textílstofunni, efni sem hafa dagað upp og enginn notar, gamla dúka, sængurver og gardínur. Fyrir nokkrum árum fundust t.d. gamlar gardínur í skólanum sem átti að henda. Þetta var ótrúlega mikið magn sem við erum enn að nýta. Efnið er að mestu hvítt og tilvalið að mála eða þrykkja á það. Gera tilraunir og þrykkja með allskonar hlutum; þreyttum ávöxtum og grænmeti, timburafgöngum, legókubbum, tvinnakeflum, laufblöðum og hverju sem okkur dettur í hug eða þrykkja með litsterku grænmeti, ss. rauðrófum og rauðlauk. Einnig hafa nemendur málað fríhendis á efnið eða búið til skapalón. Best er að mála eða þrykkja eftir að búið er að sníða og áður en saumað er.
Stærð á töskum eða pokum fer eftir stærð bútanna sem notaðir eru. Útbúa má snið af meðalstærð til viðmiðunar en það er lærdómsríkt fyrir nemendur hugsa þetta svolítið sjálf, velta fyrir sér stærðinni út frá völdu efni. Höldurnar eru sniðna úr efnisafgöngum. |
PLASTUMBÚÐIR ENDURNÝTTAR
Eins og flestir vita getur það tekið plast allt að þúsund ár að brotna niður í umhvefi okkar. Þegar fólk fer að flokka plast, áttar það sig á því hversu ótrúlega mikið magn af plasti er notað sem umbúðir utanum ýmsan varning, sérstaklega matvörur. Einnota umbúðir sem er yfirleitt hent þegar þær hafa verið tæmdar. Meðalnotkun á plastpoka er t.d. um 20 mínútur! Þó svo að maður vilji forðast plast er það hægara sagt en gert. Margar matvörur eru eingöngu í boði pakkaðar í plast. Umbúðirnar eru oft úr veglegu plasti sem sorglegt er að henda. Í textílmennt er hægt að nota það til tilrauna, reyna að finna lausnir til þess að nýta það og virkja sköpunargáfuna.
|
VINNAN MEÐ PLASTIÐ
Í verkefnunum eru eingöngu notaðar plastumbúðir í pokaformi.
Sjálf hef ég í mörg ár gert tilraunir með að endurvinna plastumbúðir með nemendum; við höfum saumað, ofið, prjónað, heklað og straujað. Allskonar listmuni og nytjahluti. Þessir hlutir endast yfirleitt lengi, sé vandað til verks. Ég hef t.d. notað snyrtibuddu sem ég gerði úr plastumbúðum í 8 ár og það sér varla á henni. |
|
LISTAMENN OG HANDVERKSFÓLK - HUGMYNDIR
Ýr Jóhannsdóttir hannar peysur undir listamannanafninu Ýrúrarí og undanfarin ár hafa verkin þróast yfir í endurvinnsluverkefni á notuðum peysum. Í samstarfi við fatasöfnun Rauða kross Íslands hefur Ýr endurunnið peysur sem orðið hafa fyrir hnjaski í fyrra lífi og henta ekki í sölu í Rauða kross búðirnar. http://www.yrurari.com/about
KRISTÍN KENNIR RÉTTU HANDTÖKIN
Kristín Gunnlaugsdóttir, prjónakona hjá Handprjónasambandinu, kann réttu handtökin við að stoppa í sokka. Það ætti alls ekki að henda góðum og fallegum prjónaflíkum þó svo að komið sé gat því það er mjög létt verk að gera við þær. Meira að segja krakkar geta stoppað í sokka og finnst það meira að segja flestum mjög skemmtilegt. Sérstaklega ef þeir fá að nota marglitt garn og gera sokkana svolítið litríka og sérstaka,“ segir Kristín í Fréttablaðinu 2. 10. 2019. Hún segir að ungt fólk þyrfti nauðsynlega að kunna að gera við gæðafatnað og ullarflíkur. Ofneysla á fatnaði í heiminum geri slíka kunnáttu þarfa. Það sé algjör synd að henda götóttum gæðaflíkum og kaupa nýtt. Það auki á neyslu.