HÖFUNDURINN |
Ég er Ásta Vilhjálmsdóttir, klæðskeri og textílkennari. Ég hef kennt textílmennt í grunnskóla í 15 ár og frá upphafi hef ég lagt mikla áherslu á nýtni og endurvinnslu í minni kennslu. Það fellur til ofgnótt af textílúrgangi sem nýta þarf sem hráefni í nýja hluti. Sjálf var ég alin upp við nýtni og að gera hlutina sjálf. Lærði til verka með því að taka þátt í störfum á heimilinu og að vera óhrædd við að prófa mig áfram við að leysa mismunandi verk. Í neyslusamfélaginu eru mun færri verk unnin heima og það eykur mikilvægi verkgreinanna.
Ég hef miklar áhyggjur af ástandi Jarðarinnar; neyslunni, menguninni og náttúrunni. Hlýnun Jarðar er staðreynd og það er mikilvægt að hefjast strax handa við að snúa þeirri þróun við. Verkefnið er okkar og þeirra sem eru að alast upp núna og eru nemendur í skólum landsins. Þess vegna er miklvægt að bjóða upp á kennsluefni sem getur hjálpað þeim að skilja hvers vegna svona er komið og hvernig hægt er að snúa þróuninni við. "Vefsíðan, bæði fræðslan og verkefnin byggjast á vinnu og reynslu minni þessi ár sem ég hef kennt. Efnið og verkefnin eru í stöðugri þróun og framsetningin og útkoman er aldrei eins. Það gerir starf mitt skapandi, krefjandi og skemmtilegt. "
|