21.1 Menntagildi og megintilgangur list- og verkgreina
|
Listir og handverk eru svo sterklega samtvinnuð daglegu lífi okkar að oft á tíðum erum við ekki meðvituð um tilvist þeirra og áhrif. Afrakstur lista og handverks einskorðast ekki við listviðburði, sýningar og verkstæði heldur er allt umhverfi okkar og daglegt líf mótað af listum og handverki. List- og verkgreinar geta auðveldað nemendum við lok grunnskóla að gera sér grein fyrir hvar áhugi þeirra liggur og átta sig á atvinnu- og námstækifærum innan starfs- og listnáms.
Í list- og verkgreinum þroska nemendur með sér sjálfstætt gildismat þar sem lögð er áhersla á að kynnast og njóta list- og verkmenningar. Þátttaka og þjálfun í gagnrýnni umræðu um handverk og listir veitir nemendum einnig aðgang að menningarorðræðu samfélagsins. Í skapandi starfi og lausnaleit getur nemandinn haft áhrif á umhverfi sitt og tekið þátt í að móta menninguna. Að tjá sig myndrænt, í handverki, hreyfingu, leik og tónum er manninum eðlislægt. Afrakstur þess má finna í mannkynssögunni og hefur mótað hana til dagsins í dag. Einstaklingar þurfa að vera meðvitaðir um þessi mótunaröfl innan hvers samfélags til að geta notið þeirra á uppbyggjandi og gagnrýninn hátt samhliða því að nýta þau og þróa áfram, sér og komandi kynslóðum til góðs. Allir hafa hæfileika til að skapa. Í list- og verkgreinum fá nemendur aðstæður og margvísleg tækifæri til að þroska þann hæfileika, dýpka hann og tileinka sér leiðir til að koma sköpun sinni í verk. Í skapandi starfi fá nemendur tækifæri til að virkja og efla ímyndunarafl sitt, þjálfast í að taka ákvarðanir þar sem þeir vega og meta mismunandi valkosti og sjá afleiðingar af vali sínu. Nemendur þroskast í samvinnu við aðra, efla sjálfstæði sitt og sjálfsþekkingu og finna hæfileikum sínum farveg. 141 Mennta- og menningarmálaráðuneyti Í list- og verkgreinum tileinka nemendur sér læsi á menningu, ferla, myndir, heilsu, hreyfingu, líkamstjáningu og tilfinningar annarra, svipbrigði, blæbrigði í tungumáli og tónum, tækni og hið manngerða umhverfi. Listir og verkþekking mynda stóran og fjölskrúðugan atvinnuvettvang. Framfarir á sviði tækni og vísinda eru byggðar á þekkingu og færni sem á rætur í verkmenningu. Þótt tæki og vélar hafi leyst manninn af hólmi við ýmis störf er þekking á verkferlum, táknfræði, skipulagi og verkaskiptingu nauðsynleg undirstaða tæknilegrar og listrænnar þróunar. Slík verkfærni samhliða listfengi er því nauðsynleg undirstaða í allri þróun, fagurfræði og hönnun véla, húsa, fatnaðar og allra hluta og listaverka sem við notum og njótum í daglegu lífi. Sú færni og þekking getur nýst á skapandi hátt bæði í starfi sem og tómstundum. Mikilvægt er að nemendur geti tengt nám í list– og verkgreinum við þá fjölmörgu atvinnumöguleika sem þeim tengjast. Nemendur fá einstakt tækifæri til að kynnast og viðhalda eigin menningu og verklagi fyrri tíma, hlúa að menningararfleifð sinni samhliða því að kynnast öðrum menningarheimum. Þar er kjörinn vettvangur til að skoða ólíka menningarheima út frá sögu þeirra, lýðræði og mannréttindum og auka þannig umburðarlyndi og skilning á fjölbreytileika heimsins. Menntun í list- og verkgreinum getur stuðlað að bættu siðferði og þjóðfélagslegri ábyrgð nemenda. Þær eru vettvangur menntunar til sjálfbærni þar sem nemendur vinna með samábyrgð, tilfinningar sínar og annarra, samhengi við aðra menningarheima og eigið umhverfi og náttúru. Er það grunnur að velferð þeirra og virkni í mótun samfélagsins. Megintilgangur með námi í list- og verkgreinum í grunnskóla er að allir nemendur kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á verkkunnáttu, sköpunarkraft, samhæfingu hugar, hjarta og handar og margar, ólíkar tjáningarleiðir. Þar fá þeir tækifæri til að skapa hluti í handverki, vinna með tákn, tóna, matarmenningu og líkamann í tíma og rúmi og tengja þannig milli hugmyndar, verka og hluta. Allt þetta þroskar og eykur hæfni fólks til að tengja milli hlutbundinnar og óhlutbundinnar hugsunar og takast á við síbreytilegan heim á persónulegan, gagnrýninn og skapandi hátt. Jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms stuðlar að jafnrétti nemenda til að finna hæfileikum sínum farveg. |
21.9 Menntagildi verkgreina |
Verkgreinar í grunnskóla eiga það sameiginlegt að stuðla að alhliða þroska nemenda og búa þá undir daglegt líf og frekara nám á sviði verkgreina. Undir verkgreinar heyra hönnun og smíði, textílmennt og heimilisfræði. Í þeim fá nemendur tækifæri til að beita ímyndunarafli sínu, sköpunargáfu, þekkingu og verkfærni til að takast á við umhverfi sitt í markvissum tilgangi. Nemendur þjálfa hæfileika til að leita lausna á vandamálum, verða sjálfstæðir í verki, og læra að líta eigin verk og ákvarðanir gagnrýnum augum. Verkleg kunnátta hvílir á hefðum, tækni og verklagi sem mikilvægt er að nýjar kynslóðir tileinki sér. Nemandinn fæst við verkefni sem hæfa þroska hans, gerir tilraunir og nýtir tækni í vinnu sinni. Þetta eykur sjálfsöryggi og starfsánægju og gefur jafnframt tækifæri til sköpunar.
Verkgreinar sem kennslugreinar eiga sér langa sögu. Markmið þeirra hefur bæði verið að búa nemendur undir verkleg störf og einnig stuðla að alhliða þroska þeirra. Umhverfi okkar byggist að miklu leyti á tækni sem er einn af skapandi þáttum menningar og mótar ásýnd hennar, inntak, merkingu og tilgang. Í starfsumhverfi nútímans eru gerðar sífellt auknar kröfur til tækniþekkingar og skilnings. Í verkgreinum öðlast nemendur skilning á umhverfi sínu sem og grundvallarþekkingu. Verkfærni og skilningur, sem byggist á rótgrónum hefðum handverks, er einnig undirstaða að öflugri verkmenningu og nýsköpun. Að skilja og vera læs á umhverfið er forsenda þess að hafa áhrif á það. Kennsla verkgreina er liður í því að skapa virðingu og jákvætt viðhorf til verklegrar vinnu og er einnig undirbúningur undir framhaldsnám í verklegum greinum. Hlutverk kennarans er að leiða nemandann þannig að hann verði sjálfstæður í verki, öðlist færni í að leysa vandamál, þjálfi eigið fagurskyn og skynhreyfifærni. Verkgreinar eru því hvoru tveggja góður undirbúningur undir lífið og frekara nám. |