SKAPANDI SAFNVEITA
Nauðsynlegt er að koma upp lítilli safnveitu í textílstofunni ef til stendur að vinna verkefni eins og þau sem hér eru sýnd. Þar er safnað öllu því sem hægt er að nýta og endurvinna í verkefni í textílmennt. Gæta þarf þess að framboð af efni sé gott. Safna má í skólanum og leita til samstarfsfólks sem er yfirleitt jákvætt og tilbúið til að hjálpa. Sumir skólar hafa auk þess komið sér upp almennri safnveitu í skólanum sem allir geta nýtt. Ég hvet samt alltaf nemendur til þess að koma sjálfir með efnivið að heiman og sendi stundum skilaboð um það til forráðamanna. Það hvetur nemendur til að vera vakandi fyrir því sem hent er og nýta má og kemur skilboðum til heimilina um að nýta megi hlutina betur. Áhugasamir forráðamenn hafa auk þess verið duglegir að koma með efnivið í safnið.
Það má safna öllu mögulegu í safnveituna. Textílúrgang úr textílstofunni; efnisbúta, efnisafklippur, garnafganga, garnspotta og annað sem fellur. Textílúrgang sem kemur annarsstaðar frá, t.d. frá nemendum og starfsfólki ; bilaðan eða ónýtan fatnað, sokka, vettlinga, rúmföt, gardínur, pottaleppa eða aðrar textílvörur. Allskyns umbúðir; kassa, pappa, gömul tímarit eða plastumbúðir. Ýmislegt smádót sem nýta má í innanstokksmuni híbýla fyrir brúður eða skart. Fundna hluti úti í náttúrunni og umhverfinu; tjágreinar, steina, köngla, skeljar og fleira. Nemendur læra fljótt að það er þeirra hagur að ganga vel um safnveituna eins og annað í textílstofunni. Mér finnst mikilvægt að efnið sé nokkuð vel flokkað og sýnilegt nemendum. Reyndar tel ég að efniviður í list-og verkgreinastofum ætti að vera sem mest sýnilegur. Það er hugmyndagefandi fyrir nemendur að sjá hráefnið sem þeir eru að vinna með. |